Mikil nákvæmisvinna að rækta rófufræ

Fjóla Signý í gróðurhúsinu þar sem fræræktunin fer fram. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Í Stóru-Sandvík í gamla Sandvíkurhreppi er ræktað rófufræ en það er eini staðurinn á Íslandi þar sem rófufræ er ræktað til sölu.

Hannes Jóhannsson hefur ræktað Sandvíkurfræið í meira en fjörutíu ár og nú hefur Fjóla Signý dóttir hans tekið við ræktuninni en nýtur þó ennþá góðrar handleiðslu föður síns.

Sandvíkurrófan táknmynd fyrir Íslendinga
„Á þessum 40 árum sem við höfum ræktað rófufræ hefur þróast séríslenskur rófustofn. Stofninn þolir vel íslenskar aðstæður, hvort sem það er mjög vætusamt, blaut, kalt eða heitt. Fræið er eins og við Íslendingar, gefst ekki upp og heldur alltaf áfram að vaxa hvað sem bjátar á,“ segir Fjóla, í samtali við sunnlenska.is.

„Sandvíkurrófan þykir líka vera bragðbetri, safaríkari og sætari en rófur sem eru ræktaðar með erlendu fræi. Lengi var norskt yrki sem meirihluti rófnabænda á Íslandi notaði en í dag kjósa langflestir íslenskir rófnabændur að sá Sandvíkurfræi,“ segir Fjóla.

Mikil þolinmæðisvinna
„Pabbi byrjaði að rækta fræið fyrst til heimaræktunar og gamans. Fljótlega fór hann að selja fræið til annarra rófnabænda og hefur ræktunin margfaldast á þessum árum. Í dag er fræið ræktað í tveimur stórum gróðurhúsum,“ segir Fjóla.

Fjóla segir að það sé mikil vinna að rækta rófufræ sem skýrir líklega afhverju hún er yfir höfuð eini fræræktandi landsins. „Þetta er mikil nákvæmisvinna og margir hlutir sem þurfa að vera rétt gerðir. Ef eitthvað fer úrskeiðis getur uppskeran tapast. Þetta er þolinmæðisvinna og dundur á hverjum degi í fjóra mánuði.“

Fræið er í vexti í um það bil fjóra mánuði yfir sumartímann. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Mikilvægt að rakastigið sé rétt
„Frærófurnar og fræið er í vexti í um það bil fjóra mánuði yfir sumartímann. Á þeim tíma þarf að undirbúa jarðveginn og planta út frærófunum. Í tvo og hálfan mánuð þarf að passa að rakastigið í moldinni sé rétt og vökvunin sé í réttum skömmtum. Það má til dæmis ekki úða á plöntuna sjálfa heldur aðeins á jarðveginn og rótina. Þennan tíma þarf að fylgjast vel með og hugsa um fræið daglega,“ segir Fjóla.

„Einnig þarf að binda upp fræið til þess að stilkarnir brotni ekki niður. Þetta þarf að handgera á hverju ári, þar sem frærófurnar vaxa misjafnt og þurfa mismunandi stuðning á mismunandi vaxtarstigum í ferlinu. Stilkarnir og skálparnir (fræbelgirnir) eru afar viðkvæmir og brotna eða opnast við minnsta rask.“

Sjálfbær í rófum
„Það sést best á tímum sem þessum, að ef allt fer á versta veg erlendis þá mun okkur ekki skorta rófur. Við erum sjálfbær af alíslenskum safaríkum gulrófum. Rófur eru auk þess mjög hollar, fullar af vítamínum og mjög ríkar af C-vítamíni enda hefur gulrófan verið kölluð appelsína norðursins,“ segir Fjóla að lokum.

TENGDAR FRÉTTIR:

„Í þessu formi er rófan ofurfæða“

 

Fyrri greinCCEP styður taekwondodeild Selfoss
Næsta greinÁtta sækja um stöðu skólastjóra