Hafnardagar í Þorlákshöfn verða settir formlega í kvöld kl. 20. Mikil stemmning hefur verið í Þorlákshöfn í aðdraganda Hafnardaga og ekki skemmir veðrið fyrir.
Um síðustu helgi var efnt til leikjadags í aðdraganda Hafnardaga auk þess sem íbúar hafa unnið að skreytingum, undirbúið hverfagrill og æft skemmtiatriði sem boðið verður upp á á föstudag í skrúðgarði Þorlákshafnar.
Í kvöld verða Hafnardagar settir formlega og þá verður einnig opnuð sýning á Bæjarbókasafni Ölfuss, þar sem sýndir verða munir sem Kristófer Bjarnason færði safninu. Kristófer starfaði lengi sem staðarhaldari við Strandarkirkju og var alla tíð sérlegur áhugamaður um uppbyggingu byggðasafns í Ölfusi. Á sýningunni verður stiklað á stóru um sögu Selvogsins og safnarann Kristófer Bjarnason. Sýningin mun standa yfir í allt sumar og verður opin á opnunartíma safnsins.
Dagskráin heldur síðan áfram fram á sunnudag en á laugardaginn verður efnt til hefðbundinnar sjómannadagskrár á bryggjunni með tilheyrandi kappróðri, koddaslag, siglingum og leikjum fyrir börnin. Ennfremur stýrir Hjalti Úrsus keppninni um Sterkasta mann Íslands og um kvöldið verður farið í leiki í fjörunni og kveikt á litlum varðeldi.
Á sunnudeginum færist hátíðarsvæðið yfir í skólann þar sem markaður verður staðsettur, boðið verður upp á leikrit fyrir yngstu börnin og öll fjölskyldan getur tekið þátt í útilitasmiðju.
Hægt er að skoða dagskrá vikunnar á vefsíðunni http://www.hafnardagar.is/ og síðan er hægt að fylgjast með útsendingum á Útvarp Hafnardagar bæði á FM 106,1 og um netið á radio.is.