Fjöldi fólks hefur í dag lagt leið sína að gosstöðvunum og inn í Fljótshlíð. Þrátt fyrir mikinn fólksfjölda og umferð á svæðinu hefur allt að mestu gengið vel.
Fisflugvél þurfti að lenda nærri gosstaðnum og eru lögreglan á Hvolsvelli og rannsóknarnefnd flugslysa á leið á staðinn. Engin slys urðu á fólki.
Þegar sunnlenska.is var á staðnum síðdegis í dag voru rúmlega 200 manns við hraunjaðarinn á Fimmvörðuhálsi. Flestir komu akandi með vélsleðum eða jeppum en fjöldi göngufólks var einnig töluverður. Dæmi eru um að fólk á gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls hafi þurft að leita aðstoðar björgunarsveita og er eitt dæmi um einstakling sem varð örmagna og þurfti hjálp við að komast niður.
Fjöldi björgunarsveitamanna er á staðnum og munu verða þar næsta sólarhringinn. Fólk sem hyggst ganga upp að gosinu þarf að vera vel búið til slíkrar göngu.
Nú um kl.18:00 í kvöld varð smá breyting á vind þannig að gufu og ösku leggur nú í átt að gönguleiðinni upp Fimmvörðuháls. Kl. 16:10 losnaði hraun úr suðurkantinum við gosstöðina þannig að hraun rennur nú að einhverju leiti einnig til suðurs.