Mikil uppbygging íbúðarhúsnæðis er á Borg í Grímsnes- og Grafningshreppi og líkur eru á að íbúafjöldinn í þéttbýliskjarnanum á Borg muni tvöfaldast á næstu mánuðum.
Síðastliðin tvö ár hefur sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps úthlutað lóðum á Borg og hefur nú öllum tilbúnum lóðum verið úthlutað. Lóðirnar sem um ræðir eru ætlaðar undir sjö einbýlishús, átta parhús og þrjú raðhús og ganga framkvæmdir hratt fyrir sig.
„Við tökum þessu fagnandi en höfum vegna mikillar eftirspurnar ráðist í það verkefni að skipuleggja fleiri íbúðalóðir og þjónustusvæði vestan við Borg. Á þjónustusvæðinu er gert ráð fyrir ýmiskonar þjónustu, svo sem hleðslustöðvum, verslun og hótelbyggingu,“ segir Iða Marsibil Jónsdóttir, sveitarstjóri í samtali við sunnlenska.is.
„Í dag eru 112 íbúar skráðir með lögheimili í 41 íbúð á Borg og á þeim lóðum sem búið er að úthluta bætast við 38 íbúðir, flestar fjögurra herbergja. Það er ekki gott að segja hvernig raðast í þær en það er líklegt að íbúafjöldinn á Borg tvöfaldist þegar íbúðirnar fyllast af nýjum íbúum,“ sagði Iða Marsibil ennfremur.