Mikil vinna lögð í að tryggja fulla mönnun lækna í Rangárþingi

Heilsugæslustöð HSU á Hvolsvelli.

Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, segir að ályktun sveitarstjórnar Rangárþings eystra varðandi heilsugæslu í Rangárþingi hafi ekki verið send til HSU.

Stjórnendur HSU hafi fyrst frétt af ályktun sveitarstjórnarinnar í fjölmiðlum en sunnlenska.is greindi frá málinu fyrr í vikunni.

Hins vegar hafa sveitastjórnirnar þrjár í Rangárþingi óskað eftir fundi vegna eftirfylgni við samstarfsyfirlýsingu og verður fundurinn haldinn síðar í þessum mánuði.

Ályktun sveitarstjórnarinnar var samþykkt vegna uppsagnar Þóris Kolbeinssonar, læknis, sem starfað hefur í héraðinu frá árinu 1989.

„Það er ávallt verklag HSU þegar starfsmaður lætur af störfum að leitað sé allra leiða til að fylla í skarð viðkomandi. Framkvæmdastjóri lækninga á HSU og yfirlæknir heilsugæslunnar hafa frá því að þeir fengu uppsagnarbréfið í hendur lagt mikla vinnu í að tryggja fulla mönnun lækna í Rangárþingi eins og verið hefur hingað til. Full mönnun lækna við heilsugæsluna í Rangárþingi eru 2,75 stöðugildi miðað við íbúafjölda. Þar hefur verið full mönnun lækna og afar góð þjónusta sem er ekki ávallt reyndin á fámennari íbúasvæðum á landinu, eins og í Rangárþingi,“ segir Herdís.

Að hennar mati er það fullkomlega eðlilegt að upp komi kvíði hjá fólki vegna óvissu um hvað taki við þegar læknar með langan starfsaldur láta af störfum.

„Við hjá HSU sýnum því fullan skilning, enda einkenna mikil persónuleg tengsl gjarnan samskipti í litlum samfélögum. Við viljum þó að skýrt komi fram að það er stefna HSU að halda áfram úti fullri þjónustu við íbúa Rangárþings þrátt fyrir eðlilegar mannabreytingar. Þess ber einnig að geta að biðtími eftir tíma hjá heilsugæslulækni í Rangárþingi er með því allra stysta sem þekkist á landinu og þar er veitt góð og samhæfð þjónusta þar sem allir sem þangað leita fá úrlausn með viðtali eða samtali samdægurs,“ segir Herdís ennfremur.

Herdís segir að fyrir liggi að nýr heilsugæslulæknir verði ráðinn til starfa. Fyrst um sinn verður ráðið í tímabundna afleysingu og það er þegar búið að tryggja þá mönnun frá þeim degi sem Þórir lætur af störfum. Nánara skipulag eða auglýsing starfa sé í hefðbundnum farvegi innan stofnunarinnar.

Fyrri greinSamið við Sonus um 17. júní
Næsta greinBjarni íþróttamaður Bláskógabyggðar 2016