Mikil vinna lögð í stígaviðhald

Mikið starf hefur verið unnið á síðustu vikum í stígaviðhaldi í Þórsmörk og á Goðalandi. Vinnan er unnin að mestu í sjálfboðavinnu og verkefnið er styrkt af Pokasjóði og Ferðamálastofu.

Samhliða stígaviðhaldinu er unnið að nákvæmri kortlagningu stíganna og ástandi þeirra.

Allt að hundrað þúsund manns heimsækja Þórsmörk árlega. Aðsókn hefur aukist ár frá ári og því brýn þörf að bæta stígakerfið.

Undanfarnar vikur hafa hópar unnið að stígaviðhaldi á Þórsmerkursvæðinu. Í vetur fengu Vinir Þórsmerkur styrki frá Pokasjóði og Ferðamálastofu til að endurbæta stígakerfi í Þórsmörk og Goðalandi. Starfsmenn Skógræktar ríkisins og hópar sjálfboðaliða frá Umhverfisstofnun hafa unnið að stígaviðgerðum undir stjórn Chas Goeman.

Stígar í Langadal, Valahnúki og Goðalandi hafa verið endurbættir, en þeir voru illa farnir á köflum vegna vatnsrennslis. Aðgerðir síðustu ára hafa bætt stígana mjög og komið hefur verið í veg fyrir stórfelldar jarðvegsskemmdir á löngum köflum af fjölförnustu stígunum.

Þessa dagana er unnið að kortlagningu stígana með GPS tækjum. Samhliða því fer fram skráning á ástandi þeirra, viðhaldsþörf og hvar bættra merkinga er þörf. Verkið er unnið af breskum hjónum Christine og David Orchard sem unnið hafa að svipuðum verkefnum víðs vegar um heiminn. Þessi úttekt og þær aðferðir sem hjónin eru að þróa ásamt Chas Goeman, munu nýtast til að skipuleggja viðhald stíganna og forgangsraða verkefnum á næstu árum. Aðferðirnar sem þau eru að þróa munu nýtast á útivistarsvæðum Skógræktar ríkisins og annarra aðila um allt land.

Mikil gróska er í skógum Þórsmerkur og þarf því að klippa greinar frá stígum til að halda þeim opnum sem er ærið verkefni. Næstu vikur verða merkingar á stígunum bættar, en þeir eru alls um 90 km langir og geta verið villugjarnir fyrir ókunnuga. Unnið verður að stígaviðgerðum áfram fram á haustið.

Heimasíða Skógræktar ríkisins

Fyrri greinEinstakur einirunni í Þórsmörk
Næsta greinFH afgreiddi Selfoss í seinni hálfleik