Stjórn Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga lýsir yfir miklum vonbrigðum með þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur tekið varðandi þingsályktunartillögu um rammaáætlun.
Samkvæmt henni verður gengið á svig við niðurstöður þeirra vönduðu þverfaglegu vinnu sem unnin var á vegum verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi stjórnar SASS í síðustu viku en þar var fjallað um þá fyrirætlun stjórnvalda að leggja fram þingsályktunartillögu um rammaáætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða sem ekki er í samræmi við niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
Stjórn SASS skorar því á Alþingi að farið verði að tillögum verkefnisstjórnar um þá virkjunarkosti sem fara eigi í nýtingarflokk.
„Það á ekki síst við um virkjanir í neðri hluta Þjórsár sem koma hvað best út af mögulegum virkjunarkostum bæði hvað varðar umhverfisáhrif og þjóðhagslega hagkvæmni og því brýnt að heimila Landsvirkjun að ljúka undirbúningsvinnu til að geta hafið framkvæmdir. Fyrir sunnlendinga er um mikilvægar framkvæmdir að ræða sem varða nauðsynlega uppbyggingu og eflingu atvinnulífs á Suðurlandi,“ segir meðal annars í ályktuninni.