Á aðalfundi Hestamannafélagsins Trausta á Borg í Grímsnesi í janúar var kynnt hugmynd um ferðaþjónustutengt þjóðmenningarsetur á starfssvæði Trausta á Laugarvatni.
„Mér lýst ágætlega á þessar hugmyndir, þarna eru á ferðinni stórar og miklar hugmyndir með Þjóðmenningarsetur. Aðkoma sveitarfélagsins að þessu máli yrði ef breyta þyrfti deiliskipulagi. Ég hef lítið heyrt í almenningi með þetta verkefni en á kynningarfundi með Hestamannafélaginu Trausta var góður og almennur áhugi fyrir þessu verkefni,“ segir Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, í samtali við Sunnlenska.
Þjóðmenningarsetrið verður fyrst og fremst ætlað ferðamönnum en staðsetning svæðis Trausta við þjóðveg Gullna hringsins er helsta aðdráttarafl þessara aðila.
Setrið verður með veitingum og afþreyingu þar sem íslensk þjóðmenning, þjóðsögur og þjóðhættir verða rauði þráðurinn. Í boði verði sögusýningar,hestasýningar og ævintýra- og húsdýragarður.