Nýliðin verslunarmannhelgin gekk vel í heildina litið hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Að sögn Herdísar Gunnarsdóttur, forstjóra, var mikill viðbúnaður á stofnuninni sem var vel í stakk búin að takast á við verkefni helgarinnar.
Góður undirbúningur skilaði sér vel enda var mikill erill á bráðamóttöku og á sjúkrahúsi, bæði á Selfossi og í Vestmanneyjum. Á bráðamóttökunni á Selfossi var stigvaxandi álag eftir því sem leið á helgina en flestir komu úr útilegum og úr sumarhúsum í nágrenni Selfoss. Færri komu af hátíðinni á Flúðum miðað við sama tíma í fyrra.
Mikið var leitað til bráðmóttökunnar á Selfossi vegna minniháttar slysa og brota. Eitt alvarlegt slys varð þegar einstaklingur féll af hestbaki og var viðkomandi fluttur á gjörgæslu á Landspítala.
Á mánudag urðu tvö stór umferðarslys þar sem kalla þurfti út töluverðan mannafla sjúkraflutningafólks. Árekstur tveggja bíla varð í Þjórsárdal og annað bílslys við Hala í Suðursveit þar sem níu slösuðust en betur fór en á horfðist í fyrstu í báðum tilfellum.
Þetta kemur fram í pistli Herdísar á heimasíðu HSU.