Mikill erill var hjá sjúkraflutningamönnum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands um helgina. Útköllin voru 21, þar af sex bráðaútköll á einum sólarhring.
Flest tilfellin voru vegna veikinda en einnig voru nokkur slys þar sem fólk hafði beinbrotnað.
Á rúmlega tveggja klukkustunda tímabili í gær voru allir fjórir sjúkrabílar í Árnessýslu og svo einnig vakthafandi sjúkraflutningamenn í Rangárþingi uppteknir í útköllum.
Mjög þung umferð var á Suðurlandi í gær og hægði það nokkuð á viðbragðstíma sjúkraflutningamanna sem náðu þó að sinna öllum þeim sem þurftu á aðstoð að halda.