Það var mikil spenna í loftinu á jólatorginu á Selfossi í dag þegar jólasveinarnir úr Ingólfsfjalli komu yfir Ölfusárbrú í sína árlegu kaupstaðarferð.
Fjöldi fólks var samankominn á jólatorginu þar sem flutt voru tónlistaratriði áður en jólasveinarnir komu til byggða og heilsuðu upp á bæjarbúa og nærsveitunga.
Sveinarnir sungu svo og trölluðu með börnum og fullorðnum og glöddu bæði lítil og stór hjörtu með galsaskap sínum.
Eins og áður er það Ungmennafélag Selfoss sem er jólasveinunum innan handar varðandi allt sem snýr að jólasveinamálum. Má þar nefna að taka niður pantanir á jólaböll eða heimsóknir og einnig pakkaþjónustuna, en jólasveinarnir hafa lengi séð um að bera út pakka á aðfangadagsmorgun.