Metfjöldi í Hrunaréttum

Kind frá Haukholtum hefur auga með ljósmyndaranum á meðan duglegir fjárhirðar gæta að fénu í almenningnum. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Sjaldan eða aldrei hefur annar eins mannfjöldi verið saman kominn í Hrunaréttum eins og í gærmorgun. Enda var veðrið með besta móti á þessum hátíðisdegi í Hrunamannahreppi.

„Já, það er óvanalega mikið af fólki hérna núna og það var mætt tímanlega í morgun. Við rekum alltaf safnið hérna úr gerði sem kallast Launfit og ég held að við höfum aldrei verið eins mörg að reka safnið yfir í réttina eins og í morgun. Þetta vinnst líka mjög hratt í góða veðrinu og það er hátíð framundan,“ sagði Jón Bjarnason, fjallkóngur í Skipholti, í samtali við sunnlenska.is.

Hann segir að fjallferðin hafi gengið mjög vel og það viðraði ágætlega á fjallmenn.

„Við fengum gott veður, það var aðeins úrkoma til að byrja með en það slapp alveg. Þetta rakst ágætlega, þó að við höfum ekki farið mjög hratt yfir í gær. Féð kemur mjög vænt af fjalli og lömbin líta vel út,“ bætti Jón við en ef fjallmenn hafa gert eitthvað gagn, eins og Jón orðaði það, hafa verið rúmlega 3.800 kindur í Hrunaréttum í gær – og fólkið var ekki mikið færra.

Jón Bjarnason, fjallkóngur, stýrir rekstrinum inn í almenninginn. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGul viðvörun í nótt og fyrramálið
Næsta greinNáttúrugrið kæra virkjanaleyfi fyrir Búrfellslund