Hrekkjavakan verður haldin með skipulögðum hætti á Selfossi í þriðja sinn næstkomandi fimmtudag.
„Við erum ekki með neinn fjölda skráðan eins og við gerðum fyrsta árið svo ég veit ekki hver fjölgunin er en hún er gífurleg á milli ára og hef ég verið að samþykkja nýja meðlimi í Facebook-hópinn á hverjum degi síðustu vikurnar,“ segir Elísa Björk Jónsdóttir, sem sá um að skipuleggja fyrstu hrekkjuvökuna á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.
„Ef fólk vill taka á móti börnum og gefa þeim eitthvað gott í poka þá er bara að setja kerti út 31. október og láta það loga milli 18:00 og 20:00. Það er í raun eina sem þarf,“ segir Elísa.
Elísa hvetur fólk eindregið til að skreyta líka. „Ég veit að metnaðurinn er mikill hjá mörgum og spurning hvort maður fari á næsta ári að henda í verðlaun fyrir flottustu skreytinguna og jafnvel klæða sig upp og taka á móti börnunum í einhverjum óhuggulegum búningum,“ segir Elísa og bætir því við að henni finnist fátt skemmtilegra en að sjá myndir inn á Facebook-hópnum frá kvöldinu.