Aðalfundur Framsóknarfélags Árborgar fór fram húsi félagsins að Eyravegi 15 í gær og var vel mætt. Stjórn félagsins var endurkjörin en formaður er Björn Harðarson.
Með honum í stjórn eru Gissur Jónsson, Guðrún Þóranna Jónsdóttir, Íris Böðvarsdóttir og Vilhjálmur Sörli Pétursson. Á fundinum var stjórn veitt heimild til að vinna að opnu framboði B-lista fyrir sveitarstjórnarkosningar í Árborg næsta vor. Af umræðum á fundinum má ráða að fjölmörg tækifæri liggja ónýtt í sveitarfélaginu og mikilvægt er að vinna þeim brautargengi í kosningunum.
Bergur Pálsson, formaður kjördæmasambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi, Helgi S. Haraldsson, bæjarfulltrúi í Árborg og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingiskona og varaformaður Framsóknarflokksins fluttu stutta tölu og fóru yfir starfið á sínum vettvangi.
Fundurinn samþykkti ályktun þar sem fram kemur að mikilvægt sé að framsóknarfólk standi saman því að mörg tækifæri eru framundan þó að flokkurinn sé nú í stjórnarandstöðu.
„Fundurinn lýsir fullu trausti á forystu flokksins svo og þingmenn sem leggja sig fram og veita ríkisstjórninni málefnalegt aðhald. Í 100 ár hefur framsóknarfólk með samstöðu og samvinnu að leiðarljósi náð góðum árangri og er nauðsynlegt að starfa áfram að góðum gildum flokksins,“ segir meðal annars í ályktun fundarins.