„Mikilvægt að Bjartur finnist sem fyrst“

Hundurinn Bjartur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Frá því á föstudaginn hefur hópur fólks á Selfossi leitað að hundinum Bjarti, sem er týndur. Bjartur er 15 ára gamall og heyrir mjög illa, hann er ljós á litinn, blanda af íslenskum fjárhundi og labrador.

Á föstudaginn hljóp Bjartur frá vinnusvæði Borgarverks við Ölfusá og sást síðan á túninu vestan við Stekkjaskóla um klukkan 16 sama dag. Síðan þá hefur ekkert til hans spurst.

„Hann fór í sína daglegu göngu með pabba, en þeir fara alltaf á sama staðinn stutt frá Eyraveginum þar sem þau búa. Bjarti er alltaf sleppt þar lausum og hann röltir um og kemur svo alltaf aftur til baka, en ekki á föstudaginn. Á meðan pabbi gaf kanínum og krummum og spjallaði stuttlega við mann sem var þarna þá bókstaflega hvarf Bjartur,“ segir Sigurborg Geirdal, í samtali við sunnlenska.is.

Systir Sigurborgar, Alma Geirdal, átti Bjart en hún lést fyrir rúmum fjórum árum. Síðan þá hefur Bjartur búið hjá foreldrum þeirra systra á Selfossi.

Fjölskyldunni afar dýrmætur
Sigurborg segir Bjart vera dásamlegan hund. „Bjartur bestaskinn er rólegur og ljúfur og hvers manns hugljúfi. Hann elskar fólk og röltir yfirleitt að fólki sem hann hittir. Hann er orðinn gamall og svolítið lúinn og elsku kallinn er með slæma gigt svo hann haltrar. Hann heyrir líka eiginlega ekkert. Bjartur er afar vel heppnuð blanda af íslenskum fjárhundi og labrador en meira á stærð við íslenskan hund.“

„Það er afar mikilvægt að Bjartur finnist sem fyrst. Hann er okkur fjölskyldunni afar dýrmætur. Hann er ekki bara gæludýr foreldra minna, heldur á hann sérstakan stað í hjarta okkar þar sem hann var hundur systur minnar sem lést fyrir rúmum fjórum árum.“

„Alma systir fékk Bjart þegar hann var níu ára gamall en hún fékk hann stuttu eftir að hún greindist með krabbamein og var hann henni mikill gleðigjafi. Þegar hún dó tóku mamma og pabbi hann til sín og hafa hugsað um hann síðan. Bjartur er gamall og gigtveikur og þarf verkjalyfin sín til að líða vel. Við verðum því bara að finna elsku kallinn og koma honum heim.“

Bjartur á sérstakan stað í hjarta fjölskyldunnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

Aukin aðstoð við leitina vel þegin
Tæplega fimmtíu manns eru í leitarspjalli þar sem leitin að Bjarti er skipulögð og segir Sigurborg að fólk sem vill taka þátt í leitinni sé velkomið í hópinn.

„Það væri frábært ef fólk myndi vilja hjálpa við að leita, hvort sem er að fara á svæðið þar sem hann týndist og labba um og leita eða hafa augun sérstaklega opin þegar það fer um bæinn. Einnig er hægt að hafa samband við mig í gegnum Facebook og ég get bætt fólki í spjallið sem er fyrir leitarhópinn.“

Leitað fram á nótt
Sigurborg segir að eftir Bjartur týndist hafi foreldrar hennar leitað en ekkert hafi gengið. „Dóttir mín hafði þá samband við Dýrfinnu og með það sama var kallaður út leitarhópur og auglýsingu um Bjart dreift víða, ásamt því að þær sögðu til hvað væri best að gera. Um helgina hefur heill hópur af fólki, ásamt okkur fjölskyldunni verið í virkri leit að Bjarti.“

„Fólk leitaði til klukkan eitt að nóttu og byrjaði strax aftur að morgni. Fólk kom með dróna og leitaði. Spjallþráður með öllum var stofnaður þar sem fólk deilir upplýsingum og lætur vita hvar það hafi leitað og kemur með hugmyndir að leitarsvæðum.“

„Við fjölskyldan erum þekkt fyrir að tala mikið en núna eigum við bara ekki til nógu stór og góð orð til að lýsa Dýrfinnu og öllu því dásamlega fólki sem hefur verið að leita að elsku Bjarti um helgina og leitar enn. Að ókunnugt fólk sé tilbúið að leggja sig allt fram við að leita að gæludýri annarra er svo magnað og fallegt.“

Óendanlega þakklát
„Ég viðurkenni alveg að við fjölskyldan erum búin að vera meyr af þakklæti alla helgina. Mamma og pabbi fluttu á Selfoss fyrir tveimur árum en við fjölskyldan búum öll í bænum, svo það er búið að hjálpa mikið að fá hjálp frá fólki sem þekkir vel til staðhátta þarna og veit hvað er best að gera. Við erum þessu fólki öllu svo óendanlega þakklát.“

„Viljum koma þakklæti okkar á framfæri til allra sem hafa hjálpað. Það dugar engan veginn en takk kærlega fyrir ykkur og hjálpina,“ segir Sigurborg að lokum.

Þeir sem vilja aðstoða við leitina getað haft samband við sjálfboðaliðasamtökin Dýrfinnu á Facebook, en þau aðstoða fólk við að leita að týndum dýrum.

Fyrri greinFrábær þátttaka í tónlistarkeppninni „Flygill“
Næsta greinTómas Valur íþróttamaður Ölfuss 2024