Mikilvægt að halda kúlinu

Ragnhildur Sigurðardóttir, betur þekkt sem Gagga. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Jógakennarinn, nuddarinn og heilsudrottningin Ragnhildur Sigurðardóttir opnar formlega nýtt jógastúdíó, Studio Gagga, fimmtudaginn 29. ágúst næstkomandi.

Ragnhildur, eða Gagga eins og hún er alltaf kölluð, er af mörgum talin einn besti nuddari landsins. Hún á orðið stóran kúnnahóp enda eru flestir sammála um að það gerist einhverjir galdrar á bekknum hjá henni.

Heilsusamlegt húsnæði
Gagga var í mörg ár með aðstöðu í kjallaranum í Miðgarði á Selfossi en tekur núna á móti fólki í Hellismýri 14 á Selfossi. Gagga segir að nýja húsnæðið breyti öllu fyrir starfsemina hennar.

„Starfsemin er á tveimur hæðum. Studioið er mjög vandlega smíðað með fyrsta flokks hljóðeinangrun og loftræstingu og um leið er farið eftir aldagömlun fræðum, sem skapa jafnvægi og góða jarðtengingu.“

„Ég er mjög þakklát fyrir iðnaðarmennina, sem hjálpuðu mér að gera þetta að veruleika. Mikilvægast er að skapa jákvæða og góða upplifun og að öllum líði vel. Hér á ég svo eftir að bæta við nýjum tækjabúnaði, sem hjálpar við bæði meðhöndlun og greiningu,“ segir Gagga í samtali við sunnlenska.is.

Gagga í nýja húsnæðinu sínu að Hellismýri 14 á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

17 ára gamall draumur
Gagga hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem viðkemur heilsu. „Ég man eftir mér 10 ára að gera jógaæfingar fyrir framan sjónvarpið í sveitinni og fann ég strax að þetta átti við mig. Frá 14 ára aldri byrjaði ég að kenna og leiðbeina í íþróttum. Til að gera langa sögu stutta þá útskrifaðist ég úr íþróttakennaraskólanum á Laugarvatni og í framhaldi af því cand mac í íþróttafræðum við Íþróttaháskólann í Osló.“

Gagga er margfaldur Íslandsmeistari í borðtennis. Ljósmynd/Aðsend

„Eftir námið í Osló starfaði ég á stórri heilsuræktarstöð á Jessheim í Noregi. Þar sá ég um og skipulagði alla einkaþjálfun ásamt öðrum kennara og ég fór líka á milli hótela á svæðinu með léttar hreyfingar og teygjur. Þegar heim var komið frá Noregi árið 2007 var draumurinn að gera lítinn jógasal og meðferðarúrræði með því sem ég hef lært og numið, hér á Selfossi á litlu verkstæði. Svo kom bankahrunið og Studio Gagga varð að bíða.“

Gagga hefur komið víða við á sínum íþróttaferli. Hér er hún (lengst t.v.) með meistaraflokki ÍA í fótbolta sem hún keppti með frá 15-18 ára aldurs. Ljósmynd/Aðsend

Tilgangurinn er að róa huga, líkama og sál
Gagga er búin að taka á móti fólki í Hellismýrinni síðan í vor þó að formleg opnun sé ekki fyrr en á fimmtudaginn.

„Ég er bara búin að prufukeyra tvö námskeið og opna formlega 29. ágúst en þá verð ég með opið hús frá 15:00-19:00. Það er svo frábært að prufukeyra námskeiðin og meðferðirnar því að þá getur maður betur fundið út hvernig hlutirnir eiga að vera og bæta það sem vantar upp á.“

Gagga býður upp á margvísleg námskeið. Yoga Nidra námskeiðin hjá henni hafa verið sérlega vinsæl. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

„Ég er búin að fá mikla hjálp frá börnunum mínum með hönnun og hugmyndum, sem ég er mjög þakklát fyrir. Dóttir mín Sonja Björg, hannaði lógóið með fallegu lótusblómi og góðri orku.“

„Fólki líður mjög vel hérna og finnur ró, endurnýjun og góða heilun. Hóparnir eru litlir og fólki líður vel með það. Það eykur vellíðan í líkama, huga og sál. Tilgangurinn er að róa huga, líkama og sál. Fá meira jafnvægi og stilla sig af.“

Mikilvægt að nota áfram það sem virkar
Gagga segir að frá unga aldri hafi hún alltaf verið mjög næm á umhverfið og hvernig fólki líður í kringum hana.

„Fjölskyldan mín var í kringum Hafstein miðill og hef ég haft þau forréttindi að kynnast Einari á Einarsstöðum mjög vel, Snorra á Fossum og fleiri ljósverum, sem hafa hjálpað mér að auka og styrkja innsæið mitt og leitt mig í það að vera lærdómsfús og fara þær leiðir sem mér er ætlað.“

„Eitt af því mikilvægasta er að í tímunum mínum og meðferðum er ég mjög upptekin af því að fræða fólk, leiðbeina og láta því líða vel. Það er líka mikilvægt að nota áfram það sem virkar fyrir fólk og óþarfi að breyta því. Leyfa sér frekar að líða vel með það sem virkar og styrkja það.“

Gagga hefur áratuga reynslu af því að aðstoða fólk við að ná betri heilsu. sunnlenska.is/Jóhanna Petersen

Jane Fonda tímar með Göggu orku
Gagga hefur menntað sig í margskonar fræðum og haldið allskonar námskeið. Flest námskeiðin sem hún hefur boðið upp á eru í rólegri kantinum eða svokölluð jóganámskeið þar sem áhersla er á að opna orkubrautir. Á þessum námskeiðum er enginn hamagangur en nú gæti orðið breyting á.

„Þegar ég var 18 ára þá kenndi ég Jane Fonda leikfimi í litlu herbergi á sjúkrahúsinu á Akranesi. Þeir tímar voru frábærir og skemmtilegir. Mig langar að hafa þannig tíma og setja Göggu orku líka inn í svoleiðis tíma. Yoga Nidra djúpslökun verð ég með áfram, sem eru mjög vinsælir tímar. Ég býð upp á heilsunudd, nálastungur, heilun, hugræna atferlismeðferð, jákvæða sálfræði og bætt hugarfar. Ég kem einnig til með að hafa námskeið á netinu þar sem ég blanda saman huganum, líkamanum, mataræði og andlegri líðan.“

Í þessu samhengi nefnir Gagga sérstaklega laxerolíuna, olíu sem hefur verið notuð til lækninga í margar aldir, eða frá því 1550 fyrir Krist. „Þessi olía er algjör kraftaverkaolía. Mig langar að leyfa fólki að kynnast þessari olíu sem ég hef unnið með í fjölda ára,“ segir Gagga sem kann margar kraftaverkasögur af lækningamætti olíunnar.

Aðstoðar fólk á stórum augnablikum í lífinu
Það er augljóst að Gagga er á réttum stað í lífinu og segir hún að starfið hennar sé bæði ótrúlega skemmtilegt og gefandi.

„Markmiðið með Studio Gagga er að hafa fallega umgjörð um starfsemina mína, aðstoða fólk á miklum tímamótum eða stóra augnablikum í lífinu sem um leið hjálpar þeim að vinna með innsæið sitt, sem um leið styrkir þau og eflir í leik og starfi.“

„Já, kannski er eitt af markmiðunum að vera meira sýnileg með það sem ég get boðið upp á eins og að vinna með innsæið og heilunina sem ég hef unnið með til fjölda ára.“

Göggu líður einna best úti í náttúrunni enda þekkir hún vel heilunarmátt hennar. Ljósmynd/Hallgrímur P. Helgason

Á okkar ábyrgð hvernig við bregðumst við
Gagga hefur áratuga reynslu af því að aðstoða fólk við að líða betur og veit hvað virkar best fyrir fólk.

„Ef ég ætti að ráðleggja fólki sem les þetta viðtal um eitthvað, þá er það fyrir utan til dæmis grunnþarfirnar eins og svefn, vatn, mataræði, hreyfingu og snertingu/kynlíf, félagslega tengingu, þá held ég að halda stjórn á tilfinningum sínum sé eitt það mikilvægasta. Eins og ég segi oft: Að halda kúlinu. Reyna að halda ró sinni í sem flestum aðstæðum.“

„Þú ræður hvernig þú bregst við umhverfinu og fólki í kringum þig. Það er á þinni ábyrgð hvernig þú bregst við til að halda jafnvægi og ró, í þér og þínum líkama. Um leið og þú leyfir allskonar tilfinningum eins og til dæmis reiði, leiða, kvíða, öfund, áhyggjum, hræðslu og öðrum tilfinningum að ná tökum á þér þá hefur það beinustu áhrif á líkamann þinn og andlega líðan.“

Þegar líkaminn segir stopp
Gagga segir að stress og streituástand geti myndast í líkamanum, sem hefur ekki góð áhrif á heilsuna í heild sinni.

„Langvarandi streita getur svo haft áhrif á til dæmis meltinguna, svefninn, verki hér og þar í líkamanum, aukna þreytu og þú getur jafnvel mætt veggnum, líkaminn getur einfaldlega sagt stopp eftir langvarandi streitu.“

„Ég ráðlegg fólki að beina athygli að sínum styrkleikum og vinna með þá á fjölbreyttan og skemmtilegan máta. Mikilvægt er að muna við erum ólík og það ber að virða,“ segir Gagga að lokum.

Fyrri greinNíu umferðarslys í dagbók lögreglu
Næsta greinÍtrekuð skemmdarverk á íþróttavellinum