Samkvæmt tölfræði VÍS hefur slysum þar sem ekið er á hross fækkað síðustu ár.
Undanfarna þrjá mánuði hefur orðið breyting þar á og vert að vekja athygli ökumanna á því að nokkur slík slys hafa verið tilkynnt til VÍS á þeim tíma.
Að sögn Sigrúnar A. Þorsteinsdóttur, sérfræðings í forvörnum hjá VÍS, hafa slysin átt sér stað í myrkri og hvetur VÍS ökumenn til að nota háu ljósin ef enginn bíll er fyrir framan og tilkynna strax til Neyðarlínunnar ef hross eru sjáanleg utan girðingar.
„Eins er mikilvægt að eigendur hesta tryggi að girðingar þeirra séu heldar, hlið sett við ristarhlið ef þau eru full af snjó og ef girðingar eru komnar undir snjó að gera ráðstafanir eins og að skipta um beitarhólf,“ segir Sigrún og bætir við að oftar en ekki hafi orðið mikið tjón í þessum slysum.
„Af þeim sem nýlega eru tilkynnt til VÍS hafa sem betur fer ekki orðið alvarleg slys á fólki en í öllum tilvikum hefur þurft að aflífa hrossin eða þau drepist í slysinu sjálfu og draga bíl af slysstað.“