Miklar endurbætur á umhverfinu við Urriðafoss

„Framkvæmdirnar hafa tekist mjög vel og eru allir hæstánægðir með það sem er búið að gera enda er svæðið allt annað á eftir, allt svo snyrtilegt og fínt.“

Þetta segir Einar Haraldsson, bóndi á Urriðafossi í Flóahreppi en miklar endurbætur hafa verið gerðar á umhverfinu við fossinn. Kostnaður við verkið var tæpar níu milljónir króna og veitti Framkvæmdasjóður ferðamannastaða styrk til verkefnisins upp á rúmar sjö milljónir króna.

Planið við fossinn hefur verið stækkað, nýr göngustígur lagður, svæðið hefur verið afgirt og upplýsingaskilti sett upp svo eitthvað sé nefnt. Um fimmtíu þúsund ferðamenn koma að Urriðafossi á hverju ári.

En stendur til að rukka inn á svæðið? „Nei, það kemur ekki til greina og hefur ekki verið neitt í umræðunni,“ segir Einar.

Fyrri greinGjaldskrá Selfossveitna hækkar
Næsta greinInga næringarþerapisti í Heilsuhúsinu