Miklar framkvæmdir framundan

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafnings­hrepps hefur tekið tilboði Suðurtaks ehf. að fjárhæð 4.402.500 kr. um malbikun göngu­stíga á Borgarsvæðinu.

Ákvað sveitarstjórn sömuleiðis að leita eftir tilboði í malbikun fyrir framan áhaldahús sveitarfélagsins. Jafnframt hefur sveitarfélagið samið við Ásvélar ehf. um að sinna nauðsynlegu viðhaldi vegslóðans frá Sandkluftavatni að Kerlingu fyrir 100.400 kr.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti Grímsnes- og Grafningshrepps, sagði í samtali við Sunnlenska að lagðar verði gangstéttir meðfram þeim götum sem hafa verið malbikaðar á Borgarsvæðinu.

„Við erum með sjö milljónir í fjárhagsáætlun til frágangs og eru þær ætlaðar í þökulagnir og sitt lítið af hverju.“ Gunnar reiknar með að heildar­fram­kvæmdir á Borgar­svæðinu muni verða rétt rúmlega 7 milljónir þegar allt er tekið saman.

Fyrri greinHeppilegra að sækja heita vatnið í hreppana
Næsta greinÓsátt við aukið skrifræði Jöfnunarsjóðs