Miklar skemmdir urðu á grillskýli og gestahúsi hjá sumarhúsi við Mosaveg í landi Úthlíðar í Biskupstungum í kvöld, eftir að eldur kviknaði í grilli.
Neyðarlínan fékk boð um eldinn um klukkan 20:18 og voru slökkviliðsmenn Brunavarna Árnessýslu frá Laugarvatni, Reykholti og Selfossi kallaðir á vettvang.
Eldurinn barst frá grillskýlinu yfir í gestahúsið auk þess sem eldur kviknaði í gróðri á svæðinu. Að sögn Lárusar Kristins Guðmundssonar, varaslökkviliðsstjóra, gekk slökkvistarf vel en því var lokið um klukkan 22.
