Miklar sprungur eru í sigkötlum í Mýrdalsjökli eins og sjá má á mynd sem áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar tók í morgun. Viðbúnaðarstig hefur verið lækkað.
„Það eru merki um hlaup úr tveimur sigkötlum syðst í Kötluöskjunni og merki um hreyfingu víðar,“ sagði Einar Kjartansson jarðeðlisfræðingur í samtali við mbl.is fyrr í morgun.
Ríkislögreglustjóri hefur í samráði við lögreglustjóran á Hvolsvelli og vísindamenn lækkað almannavarnastig af hættustigi niður á óvissustig. Órói hefur minnkað í jöklinum og vatnsyfirborð lækkað í Múlakvísl. Sérstök vakt verður á Veðurstofu Íslands og fylgst með framvindunni.
Rýmingu í Álftaveri og Meðallandi var aflétt fyrr í dag. Mýrdalsjökull er áfram skilgreint hættusvæði og lokaður allri umferð. Slysavarnafélagið Landsbjörg verður með öfluga hálendisvakt á svæðinu. Fjöldahjálparstöð verður áfram opin á Kirkjubæjarklaustri.