Eins og fram hefur komið í fréttum fækkar sjúkraflutningamönnum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá áramótum. Fleiri breytingar á HSu fela í sér frekari fækkun stöðugilda við stofnunina.
Frá 1. janúar næstkomandi verður einn sjúkrabíll mannaður um nætur í Árnessýslu í stað tveggja. Auk þeirra tveggja fastráðnu sjúkraflutningamanna sem sagt er upp fá tveir lausráðnir sjúkraflutningamenn ekki framlengingu á samningi sínum svo að í raun fækkar um fjóra menn.
En þetta eru ekki einu breytingarnar hjá stofnuninni því stjórnendur hennar hafa farið í gegnum þónokkra endurskipulagningu vegna mikillar lækkunar á rekstrarfé stofnunarinnar, allt frá árinu 2009. Gripið hefur verið til margháttaðra aðgerða til að draga úr útgjöldum en þrátt fyrir það á stofnunin við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Stjórnendur HSu hafa ítrekað gert velferðarráðuneytinu grein fyrir þessum vanda.
Um næstu áramót verður starfsemi og vinnuskipulag handlækninga og skurðstofu aðlöguð þeirri þjónustu, sem þar hefur verið að undanförnu. Handlækningadeild hefur verið lögð niður, en skurðaðgerðir og speglanir í göngu- og dagdeildarþjónustu verða tvo til þrjá daga í viku.
Þjónusta lyflækna verður aukin á ýmsum sviðum, t.d. varðandi vaktþjónustu, svefn- og öndunarfærarannsóknir og lungnaspeglanir. Þá hefur starfsemi bráðamóttöku verið að aukast stöðugt og verður reynt að stuðla að því að svo geti verið áfram.
Að því er fram kemur í frétt á heimasíðu HSu fela þessar breytingar í sér nokkra fækkun stöðugilda en flestum starfsmönnum var hægt að bjóða starf á öðrum deildum.