Rangárþing eystra og Míla hafa undirritað samning vegna kaupa Mílu á ljósleiðarakerfi sem nær til heimila og fyrirtækja í dreifbýli sveitarfélagsins í Fljótshlíð, Landeyjum og Hvolhreppi.
Samningur þessi er undirritaður að undangengnu útboði en áður hafði Míla fest kaup á ljósleiðarakerfi sveitarfélagsins sem liggur undir Eyjafjöll.
Gert er ráð fyrir að þær fyrstu af þeim 240 tengingum sem nú bætast við verði tilbúnar á næstu vikum. Með tilkomu ljósleiðarans fá notendur á svæðinu möguleika á 100 Mb/s internethraða í báðar áttir. Þá er bandbreiddin það mikil að það hefur engin áhrif á gæði sambandsins þó allt sé í gangi í einu.
Með þessum samningi verður hið nýja ljósleiðarakerfi í Rangárþingi eystra að fullu í eigu og rekstri Mílu og nýtur þeirrar þjónustu sem fyrirtækið hefur að bjóða. Öll fjarskiptafyrirtæki sem bjóða fjarskiptaþjónustu til einstaklinga hafa jafnan aðgang að ljósleiðara Mílu til að veita sína þjónustu.