Listakonan Guðný Björk Pálmadóttir er búsett á Selfossi og hannar undir merkinu Fabia Design.
Vörurnar sem Guðný hannar hafa vakið verðskuldaða athygli en í vörulínu Fabia Design má meðal annars finna einstaka ömmubolla, kraftmikið ljóð og fallega stjörnmerkjaplatta, svo fátt eitt sé nefnt.
Alla tíð verið með frjótt ímyndunarafl
„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á allri hönnun. Ég var mjög ung þegar ég var búin að ákveða að starfa sem hönnuður þó svo að í gegnum barnæskuna hafi ég rokkað á milli arkitektúrs og fatahönnunar. Ég hef alla tíð verið með frjótt ímyndunarafl og með árunum hef ég lært að ég þrífst ekki nema í skapandi umhverfi,“ segir Guðný í samtali við sunnlenska.is.
Síðan árið 2005 hefur Guðný unnið á sviði innanhússhönnunar og vöruþróunar, jafnt sjálfstætt starfandi, innan fyrirtækja og gegnum nám. Guðný er með BSc prófi í arkitektúr og MSc í nýsköpun og frumkvöðlafræðum. Hún hefur mikið verið að taka heimili í gegn fyrir fólk undir nafninu Studio Fabia, samhliða því að hanna sjálf einstakar vörur undir nafninu Fabia Design. Það má því með sanni segja að líf hennar snúist um hönnun á allan hátt.
Vörur innblásnar af íslenskri náttúru
„Mín andlega næring felst í því að búa til eitthvað sem mér finnst fallegt. Það er því óhætt að segja að ég sé alltaf eitthvað að brasa og oftar en ekki með nokkra bolta á lofti í einu.“
Guðný segir að það sé erfitt að segja hvaðan hún fái helst innblástur. „Ég hef reynt að tengja það við svo margt og hef ég til dæmis einstaklega gaman af íslenskri náttúru. En fyrir tveimur árum, rétt eftir að ég kom með Ömmu bollana á markað kom til mín kona sem ég vann fyrir í nokkur ár og sagði; Guðný þú ert svo mikil hugsjónarkona. Þessi setning hefur setið í mér og held ég hreinlega að þetta hafi verið rétt hjá henni, því það sem gefur mér mestan innblástur eru hughrif og tilfinningar. Sem svo kemur aftur að íslenskri náttúru, en það er fátt sem hefur jafn mikil áhrif á mig en náttúran hér á Íslandi. Því er mikið af mínum vörum innblásnar af náttúrunni og því sem íslenska náttúran hefur uppá að bjóða.“
Stytting á fabulous
„Nafnið Fabia hefur fylgt mér í mörg ár, sennilega frá því 2007. En fabia var mín stytting á orðinu fabulous. En svo var ég líka með ákveðið Ítalíublæti á þessum tíma og því fannst mér tilvalið að nota vinsæla karlmannsnafnið Fabio og setti bara kvenkynsgreini á það. Eða skipti út o-inu fyrir a. Ég notaði nafnið lengi sem listamannsnafn en það var svo í byrjun árs 2017 sem ég ákvað að taka skrefið og koma með mína fyrstu vöru á markað þá undir nafninu Fabia. Síðan þá hefur vöruúrvalið hjá mér aukist jafnt og þétt og hef ég fengið ótrúlega góð viðbrögð og ætla að halda ótrauð áfram,“ segir Guðný.
„Vörurnar mínar myndi ég segja að væru einstakar og öðruvísi, þar sem hver vara er innblásin af hugsjón um að gleðja aðra á sama tíma og þær eru hannaðar þannig að þær skilji eftir sig eins lítið umhverfisspor og kostur er,“ segir Guðný sem er sérlega annt um umhverfið.
Hvatningarorð til sjálfrar hennar varð óvæntur smellur
Ljóð Guðnýjar, Frá konu til konu, hefur vakið þó nokkra athygli enda þykir það í senn fallegt og kraftmikið. „Ljóðið Frá konu til konu samdi ég fyrir nokkrum árum, og var þá samið frá mér til mín. Það var á einum af þessu erfiðu tímum í lífinu þar sem vindurinn blés nokkuð þétt í fangið en það var ekki annað í boði en að standa í fæturna samt sem áður. Þaðan kemur ljóðið, hvatning frá mér til mín. Það var svo einhverju seinna sem ég ákvað að lesa ljóðið upp fyrir góðar vinkonur á góðu kvöldi. Þær stóðu algjörlega á gati og hvöttu mig til að gera eitthvað meira með þetta ljóð og leyfa fleirum að njóta þessara hvatningarorða. Það var til þess að ég lét framleiða það undir vörumerkinu mínu og gat þannig nýtt með þær söluleiðir sem ég hafði þegar byggt upp.“
„Það er óhætt að segja að móttökurnar hafi verið framar björtustu vonum. Ljóðið er klárlega söluhæsta varan mín frá upphafi og hef ég fengið fjöldann allan af skilaboðum og kveðjum frá konum sem þessi orð hafa talað til. Það er í raun fátt sem jafnast á við það að það sem kemur svona beint frá hjartanu, þar sem manni líður eins og maður sé að setja sál sína út í cosmosið, hafi svona mikil og góð áhrif á aðra. Það gefur mér ótrúlega mikið og er miklu verðmætara en peningurinn sem ég fæ fyrir það,“ segir Guðný.
Missirinn varð kveikjan að ömmubollunum
Ömmubollarnir frá Fabia hafa einnig notið mikilla vinsælda enda einstaklega fallegir bollar. „Ömmubollalínan er einnig sprottin af eigin tilfinningum, en árið 2018 lést föðuramma mín. Hún var mikil fyrirmynd í mínu lífi og hjá henni átti maður alltaf skjól. Amma var bóndakona í fjölda ára og mikill náttúru- og blómaunnandi. Þessi missir var kveikjan af ömmubollunum. Ömmubollarnir skarta blómum úr íslenskri náttúru þar sem hinn klassíski og að mínu mati ömmulegi blómabolli fékk nútímalegt útlit.“
„Bollarnir eru mjög einfaldir og látlausir í útliti og framaná bollanum er það blóm sem valið var það árið. Liturinn inni í bollanum fylgir svo blóminu og þannig myndast skemmtileg og poppuð samsetning af bollum. Fyrsti bollinn kom 2018 og fannst mér tilvalið að velja gleym-mér-ei það árið til minningar um ömmu mína. Síðan hafa komið tveir bollar; 2019 var gulur sem skartar brennisóley og núna 2020 kom bleikur bolli með eyrarrós. Svo höldum við áfram og er 2021 bollinn langt kominn í hönnun og mun koma í verslanir á fyrri hluta ársins 2021,“ segir Guðný.
Getur verið flókið að hanna með umhverfisvitund
Sem fyrr segir er Guðnýju sérlega annt um umhverfið og náttúruna. „Umhverfisvitund hefur verið mér hugleikin í mörg ár og í gegnum allt mitt nám í Danmörku var mikið lagt upp úr umhverfisvitund. Það skiptir mig því miklu máli í gegnum allt hönnunarferlið hvert hið raunverulega kolefnisspor vörunnar er. En þetta er því miður ekki einfalt ferli og má finna kosti og galla við allt mögulegt.“
„Ég reyni því að horfa á heildarmyndina alveg frá vöggu til grafar eða frá hugmynd að veruleika. Þannig hafa margar af mínum hugmyndum fallið um sjálfa sig þegar ég fer að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni og margar hugmyndir komnar langt í ferlinu en vegna þess að ég finn ekki lausn á ákveðnum hlutum þá eru vörurnar ennþá í biðstöðu þar til ég finn viðeigandi lausn.“
„Til að mynda hef ég nú fært framleiðslu á öllum vörum til Evrópu og sumar hingað til Íslands til að minnka kolefnisspor við flutning. Það er til dæmis mun erfiðara að finna evrópska framleiðendur en framleiðendur í Kína og á Indlandi. Þetta hefur því stundum verið flókið en ég vil líta svo á að hindranir séu bara verkefni til að leysa og þrjóskast ég við að finna viðeigandi lausnir,“ segir Guðný.
Framleiðslubretti úr íslenskri ösp
Nýjasta varan á markað er Populus. „Populus er framreiðslubretti sem er unnið úr íslenskri ösp. Verkefnið var meðal annars styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands (SASS) en ákveðna þróunarvinnu þurfti til að framleiða úr íslensku tré. Öspin er af Austurlandi þar sem hún er felld, þurrkuð og söguð. Í framhaldi kemur hún hingað heim þar sem ég og maðurinn minn klárum að vinna hana fyrir sölu. Brettinu fylgja svo bakki og kertastjaki sem seglast við bakkann. Þeir eru úr stáli og eru framleiddir í Búlgaríu,“ segir Guðný.
Áfram Selfoss!
Eins og fram hefur komið þá er Guðný búsett á Selfossi. „Ég hef búið hér á Selfossi með fjölskylduna mína í rúm tvö ár og kunnum við ótrúlega vel við okkur. Það er ekki laust við að við séum farin að líta á okkur sem Selfyssinga en við mætum til dæmis reglulega á leiki þar sem við hvetjum Selfoss af innlifun. Við erum allavega komin til að vera og hlakkar til að verða ennþá virkari þáttakendur í bæjarlífinu,“ segir Guðný að lokum.
Hægt er að nálgast vörurnar frá Fabia Design víðs vegar um land, meðal annars í Líf & list í Kópavoginum, Sjafnarblómum á Selfossi og Húsgagnavali á Höfn. Innan skamms bætist svo Rafverkstæði Ragnars á Hvolsvelli í hópinn.