Lögreglan á Suðurlandi fundaði í morgun með Almannavörnum, Veðurstofunni og Vegagerðinni.
Minna varð úr úrkomu í Skaftafellssýslum en spár gerðu ráð fyrir í nótt þannig að ekki kom til lokana þar en víða er fljúgandi hálka á vegum og fullt tilefni til að fara varlega, hvort sem er fyrir akandi eða gangandi vegfarendur.
Úrkomu- og hitaspá virðist ætla að ganga eftir en ef eitthvað er þá er mögulega minna afrennsli en útlit var fyrir. Ekki hafa borist fréttir af flóðum eða nýmyndun stífla í árfarvegum en verði menn varir við slíkt eru þeir hvattir til að láta lögregluna eða Veðurstofuna vita.
Áfram verður fylgst með og aðgerðastjórn virkjuð verði efni til þess.