Lítil rúta með átján manns innanborðs valt á Þingvallavegi vestan Kjósarskarðsvegar um klukkan fjögur í dag. Enginn er alvarlega slasaður.
Minniháttar meiðsl munu hafa orðið á fólki en það bíður í bílnum þess að verða bjargað og er ekki talið í hættu. Lögregla og sjúkrabifreiðar eru ýmisst komin á vettvang eða að koma þangað.
Í Hveradalabrekku eru nú 4 bílar út af vegi. Ekki hafa orðið þar slys á fólki og er unnið að því að aðstoða alla niður af heiðinni. Þá mun strætisvagn hafa lent í vandræðum vestar á heiðinni .
Mjög vont veður er nú víða á fjallvegum vestanvert í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi. Þannig er búið að loka Hellisheiði og Þrengslum ásamt því að Mosfellsheiði og Nesjavallaleið er einnig lokuð. Nánari upplýsingar um veður og færð er að finna á vef Vegagerðarinnar.