Eiríkur Tryggvi Ástþórsson sveitarstjórnarmaður M-lista í Mýrdalshreppi lýsti því yfir á sveitarstjórnarfundi í Vík síðdegis, að hann myndi starfa utan lista það sem eftir væri kjörtímabils.
Ríkisútvarpið greinir frá þessu.
M-listi Mýrdælinga átti tvo fulltrúa í sveitarstjórn. B-listi framfarasinna hefur þrjá menn og myndar meirihluta í sveitarstjórninni. Því má segja að minnihlutinn hafi klofnað.
Eiríkur Tryggvi sagði í samtali við RÚV að ástæða úrsagnar hans úr M-listanum sé málefnaágreiningur. „Í M-listanum kom saman fólk úr öllum áttum og ekkert óeðlilegt að skoðanir séu skiptar. Ég stend áfram fyrir það sem ég var kosinn og mun styðja góð mál,“ segir hann. Inntur eftir því hvaða mál væri helst um að ræða nefnir Eiríkur Dyrhólaey. „Það féll dómur í Hæstarétti um eignarhald á Dyrhólaey og ég lít svo á að því máli sé þar með lokið. En það eru ekki allir sammála um það.“