Minnihlutinn vill sameinast Ölfusi

Meirihluti bæjarstjórnar Hveragerðis hafnaði tillögu minnihlutans á síðasta fundi um að hefja viðræður við Ölfusinga um sameiningu sveitarfélaganna.

Bæjarfulltrúar A-listans leggja til sameiningarviðræður verði hafnar nú þegar og stefnt að sameiningu fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar vorið 2014.

Í greinargerð með tillögunni segir að sífellt fleiri málaflokkar séu færðir fá ríki til sveitarfélaganna. Nauðsynlegt sé að sameina og efla sveitarfélögin til þess að þau séu betur í stakk búin til að taka að sér þessi verkefni.

Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfuss hafa nú þegar samstarf á mörgum öðrum sviðum, t.d. sameinilega félagsþjónustu auk þess sem mörg börn úr Ölfusi sækja skóla og leikskóla í Hveragerði. Sveitarfélögin vinna einnig saman að ýmsum verkefnum í gegnum Héraðsnefnd Árnessýslu. Þá er fjárhagsleg staða sveitarfélagana mjög sambærileg.

Sameinað sveitarfélag yrði með rúmlega 4.200 íbúa og minnihlutinn segir að enginn vafi sé á því að bæði sveitarfélögin mundu hagnast verulega á sameiningu og miklir fjármunir mundu sparast í yfirstjórn.

Meirihlutinn lagði fram breytingatillögu þar sem þess er óskað að sveitarfélagamörkum ofan Varmár og upp að fjalli verði breytt. Um er að ræða tiltölulega litla spildu sem að stóru leyti er óbyggð en svæðið er afar mikilvægt fyrir Hveragerðisbæ vegna nálægðar þess við byggðina.

Einnig bendir meirihlutinn á að vinna sé í gangi á vegum SASS um eflingu sveitarstjórnarstigsins á Suðurlandi. Eðlilegt hljóti að teljast að áfram sé haldið á þeirri braut áður en ákvarðanir eru teknar um aðrar sameiningar.

Tillaga A-listans var því felld með fimm atkvæðum meirihlutans sem síðan samþykkti sína tillögu um að óska eftir breyttum sveitarfélagamörkum.

Bæjarfulltrúar A-listans furða sig á afstöðu Sjálfstæðismanna og segja rök þeirra haldlaus og augljóst að einhverjar allt aðrar ástæður liggja að baki. Í bókun á fundinum segja þau ekki ólíklegt að Árnessýsla verði eitt sveitarfélag innan örfárra ára og mikilvægt sé að Hveragerði og Ölfus komi að þeirri sameiningu sem eitt sterkt sveitarfélag. „Bæjarfulltrúar A-listans munu því halda áfram að vinna þessu máli framgang þrátt fyrir einstrengislega afstöðu sjálfstæðismanna.“

Fyrri greinÍ vímu með börn í bílnum
Næsta greinHeita vatnið tekið af í Þorlákshöfn