Minnihlutinn vísar á meirihlutann

Konur sem starfa hjá sveitarfélaginu Árborg hafa engan rétt til að ganga út af vinnustöðum í tilefni Kvennafrídagsins í dag.

Þetta kom fram bréfi framkvæmdastjóra Árborgar sem sent var til leikskólastjóra í sveitarfélaginu.

Þegar leikskólastjórar í Árborg leituðu eftir svörum um viðhorf Ástu Stefánsdóttur, framkvæmdastjóra sveitarfélagsins, við Kvennafrídeginum sendi hún þeim tölvubréf sem sagði að enginn réttur væri til þess að ganga út í tilefni dagsins.

Fréttastofa Bylgjunnar og Vísis leitaði eftir frekari svörum frá Árborg vegna málsins en fékk þau svör að Ásta væri í fríi í dag og væri ekkert annað að segja um málið. Vildu starfsmenn fá frí gætu þeir leitað eftir því eins og aðra daga en bæjaryfirvöld íhlutuðust ekki í þeim málum.

Í frétt sem birtist á Vísi var haft eftir oddvitum minnihlutans í Árborg að þeir hefðu ekkert hafa um málið að segja.

Í tilefni af þessum fréttaflutningi hafa bæjarfulltrúar minnihlutaflokkanna sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að þeir hafi fyrst heyrt af umræddu erindi leikskólastjóra sveitarfélagsins í hádegisfréttum Bylgjunnar.

„Vegna þess að undirrituðum hafði ekki verið kynnt erindið og þar með ekki haft tök á að taka afstöðu til þess, vísum við þeirri ákvörðun um að hafna erindi starfsfólksins um frí til þess að taka þátt í hátíðarhöldum vegna 35 ára afmælis kvennafrídagsins, alfarið til framkvæmdastjóra og meirihluta bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar,“ segir í yfirlýsingu minnihlutans en undir hana rita Eggert Valur Guðmundsson og Arna Ír Gunnarsdóttir, bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, Helgi S Haraldsson bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins og Þórdís Eygló Sigurðardóttir bæjarfulltrúi Vg.

Fyrri greinUndirskriftum safnað vegna HSu
Næsta greinDaníel stóðst prófið