Minningarsteinn afhjúpaður í Miðdal

Sl. laugardag var afhjúpaður í kirkjugarðinum í Miðdal minningarsteinn um hjónin Katrínu Eyjólfsdóttur (1757 – 1815) og Þorleif Guðmundsson (1763-1833) og börn þeirra.

Börnin voru fimm sem náðu fullorðinsárum: Eyjólfur, Dýrfinna, Guðmundur, Guðrún og Erlendur.

Árið 2006 kom út niðjatal þeirra hjóna undir heitinu Laugardalsætt. Í því eru nöfn tæplega 11 þúsund afkomenda. Afkomendur Eyjólfs Þorleifssonar bónda á Snorrastöðum og eiginkvenna hans Ragnheiðar Bjarnadóttur frá Efstadal og Margrétar Einarsdóttur frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi er fjölmennasti afkomendahópurinn.

Enn þann dag í dag getur fjöldi fólks í Grímsnes- og Grafningshreppi og uppsveitum Árnessýslu rakið ættir sínar til þeirra Katrínar og Þorleifs á Böðmóðsstöðum.

Þess má geta að Eyjólfur Þorleifsson á Snorrastöðum var afi Ingunnar Eyjólfsdóttir konu Böðvars Magnússonar á Laugarvatni. Sigurður Kristinn Hermundarson ættfræðingur afhjúpaði steininn að viðstöddum þátttakendum í árlegri ferð Laugardalsættar um slóðir forfeðra og formæðra.

Fyrri greinSóttu þreyttan göngumann
Næsta greinMótmæla uppsögn Magnúsar Hlyns