Þann 14. júní sl. var aðstandendadagur á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Kirkjuhvoli á Hvolsvelli. Þar var Markúsar Runólfssonar frá Langagerði minnst sérstaklega.
Dagurinn var sérstaklega hátíðlegur en Kirkjuhvoll fagnar 30 ára starfsafmæli í ár og í tilefni þess var dagurinn með afmælisívafi. Gestum og íbúum Kirkjuhvols var m.a. boðið upp á kaffi og tertur og tónlistaratriði frá Tónlistarskóla Rangæinga og var margt um manninn.
Einn af hápunktum dagsins var þegar gestir minntust Markúsar Runólfssonar frá Langagerði en hann var mikill brautryðjandi þegar hann lagði grunn að heimilinu og rak það fyrstu árin.
Í tilefni af 30 ára afmælinu var minningarsteinn um Markús afhjúpaður en á honum stendur: Markús Runólfsson Langagerði – Aðalhvatamaður og rekstrarstjóri Kirkjuhvols frá 1985-1998 – F 25.6. 1928 D 9.3. 2002.