Maður sem slasaðist alvarlega í flugeldaslysi á gamlárskvöld á Selfossi er nú kominn heim af sjúkrahúsi. Hann missti þrjá fingur annarrar handar alveg og hluta þess fjórða.
Þá er hann nokkuð skorinn á hinni höndinni en önnur meiðsl eru minni.
Maðurinn kveðst hafa keypt flugeldinn, sem slysinu olli, hjá einkareknum sölustað í Hafnarfirði og að um hafi verið að ræða svokallaða kúlurakettu. Hann segist hafa kveikt í rakettunni með venjubundnum hætti, hún hafi farið upp en kúlan sjálf losnað frá og rúllað á jörðinni.
Hann hafi þá tekið kúluna upp en hún sprungið um leið með fyrrgreindum afleiðingum.
Lögreglan á Selfossi vinnur áfram að rannsókn málsins, m.a. með skoðun á sambærilegri vöru.