Karlmaður missti fingur þegar hann klemmdist á glussatjakki þegar hann var að vinna við að ferma vörubifreið í Þorlákshöfn á miðvikudaginn í síðustu viku.
Í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi kemur fram að maðurinn hafi verið fluttur á sjúkrahús og fingurinn með, en ekki fylgir sögunni hvort tekist hafi að græða fingurinn á manninn aftur.
Þrjú önnur slys eru skráð í dagbók lögreglunnar. Á þriðjudag slasaðist stúlka á Selfossi þegar hún féll af rafmagnshlaupahjóli. Meiðsli hennar voru ekki talin alvarleg. Sama dag skarst maður á hendi í Rangárvallasýslu, þegar hann var að vinna við járningar. Hann fluttur af samferðafólki á móti sjúkrabifreið og síðan á heilsugæsluna á Selfossi til aðhlynningar.
Á fimmtudag slasaðist svo karlmaður á fæti þegar stigi rann undan honum þar sem hann var við vinnu við hús sitt í Árnessýslu. Fallið var um tveir metrar og var talið að maðurinn væri mögulega fótbrotinn.