Misstu vinnuna hjá Icelandair og opnuðu barnavöruverslun

Elín Rós og Kristján með soninn Kára í versluninni Yrju á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Þann 16. apríl næstkomandi mun barnavöruverslunin Yrja opna að Austurvegi 21 á Selfossi. Eigendur verslunarinnar eru þau Elín Rós Arnlaugsdóttir og Kristján Bergsteinsson, frá Selfossi.

„Þetta hefur verið draumur í um fimm ár eða eftir að við eignuðumst eldri son okkar. Flugið var okkar helsti draumur á þeim tíma en eftir að við misstum bæði vinnuna hjá Icelandair, í fæðingarorlofi með yngri son okkar þá ákváðum við að þetta væri rétti tíminn til að láta næsta draum rætast,“ segir Elín Rós í samtali við sunnlenska.is.

Mikil þörf á verslun sem þessari
„Við fundum það í COVID að það var ekki alltaf hlaupið að því að komast til Reykjavíkur til að versla föt á strákana eða til að redda gjöfum fyrir minnstu krílin í kringum okkur. Þörfin var greinilega mikil og þegar að draumahúsnæðið losnaði þá var ekki aftur snúið,“ segir Elín Rós en verslunin er til húsa í gamla Landsbankahúsinu á Selfossi, sama húsi og Sjafnarblóm.

Elín Rós segir að þau hafi fyrst farið að skoða þetta af einhverri alvöru í lok síðasta sumars. „Þá byrjuðum við að senda á byrgja og kynna þá fyrir því sem að við værum að fara gera. Við fengum svo húsnæðið í lok árs 2020. Mesti tíminn hefur farið í það að bíða eftir vörunum en COVID hefur sett smá strik í reikninginn.“

Fjölbreytt úrval 
„Við erum alltaf að skoða í kringum okkur og bæta við merkjum svo listinn er alls ekki tæmandi en í fyrstu verðum við með föt frá Joha, CeLaVi, Enfant, Petit by Sofie Schnoor og Kindly the label. Einnig verðum við með vörur frá Pippi, Goki, Holztiger, MinMin og Mr. Maria,“ segir Elín en verslunin verður með fatnað fyrir 0-8 ára aldurinn ásamt leikföngum.

Aðspurð hvaðan Yrju-nafnið sé komið segir Elín Rós að það sé skondin saga á bak við það. „Yrja er nafn sem að við fundum fyrir tilviljun inni á Nefna-appinu og það var merkingin bak við það sem að heillaði okkur en Yrja þýðir regnúði. Við sáum strax fyrir okkur hvernig við gætum nýtt það í logoið og Kristján sá svo um að hanna það.“

Kom fjölskyldunni ekki á óvart
Elín Rós segir að viðtökurnar frá fólkinu í kringum þau við versluninni hafi verið virkilega góðar. „Við höfum fengið mikið af fallegum skilaboðum sem hvetja okkur áfram. Hvað varðar okkar nánasta fólki þá kom þetta þeim ekkert sérstaklega á óvart en við erum mikið draumafólk, við lifum hratt og kýlum á hlutina.“

„Við stefnum á að opna dyrnar um miðjan apríl og hlökkum mikið til að taka á móti öllum. Þangað til verður hægt að versla í netversluninni okkar www.yrjaverslun.is og við bjóðum upp á fría heimsendingu á Selfossi þangað til,“ segir Elín Rós að lokum.

Fyrri greinEngin fjölgun smita á Suðurlandi
Næsta greinÞrír nýir stjórnendur á HSU