Tekið verður við umsóknum um styrki úr Sjóðnum góða með nýjum hætti í ár vegna COVID-19. Sótt er um í gegnum netið á þar til gerðu umsóknarblaði.
Sjóðurinn góði var settur á laggirnar árið 2008 og er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings, Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu. Sjóðurinn hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.
Gera ráð fyrir að umsóknum fjölgi í ár
„Sjóðurinn er fyrir efnaminni fjölskyldur og einstaklinga, sem búsett eru í Árnessýslu og þurfa á sérstakri aðstoð að halda fyrir jólin. Þar sem við erum ekki byrjuð að taka á móti umsóknum getum við ekki sagt til um það núna, en okkur grunar að umsækjendur verði fleiri í ár en áður,“ segir sr. Guðbjörg Arnardóttir, sóknarprestur á Selfossi, í samtali við sunnlenska.is.
Guðbjörg segir að umsóknum í Sjóðinn góða hafi fjölgað mikið síðustu ár. „En íbúm hefur líka fjölgað á svæðinu og teljum við það helstu skýringuna á fjölguninni. Í fyrra var úthlutað til 178 fjölskyldna og gerum við ekki ráð fyrir öðru en að sú tala hækki eða verði mjög svipuð.“
Hópurinn sem fær styrk í Sjóðnum góða er fjölbreyttur. „Það er fólk sem hefur misst vinnuna eða vegna örorku eða veikinda getur ekki unnið, einstæðir foreldar sem vinna láglaunastörf eða eru með miklar skuldir á bakinu,“ segir Guðbjörg.
Fjáröflun erfið vegna COVID-19
Guðbjörg segir að staðan í sjóðnum hafi ekki verið góð í haust en að hún hafi batnað. „Ég er ekki með yfirlit yfir reikninginn svo ég sé það ekki nákvæmlega. Eitthvað hefur borist af háum upphæðum síðan í haust, meðal annars frá kvenfélögunum hér í kring. Það er líka erfitt að ýmsar fjáraflanir sem hafa verið fyrir sjóðinn á undanförnum árum eru ekki mögulegar í COVID-19 en kvenfélögin hafa fundið nýjar leiðir og má þakka fyrir það. Í fyrra var úthlutað tæpum 6,3 milljónum króna, sú upphæð var alls ekki til í haust.“
„Í fyrra var hægt að gefa jólagjafir og skilja eftir undir tré í bóksöfnum á Selfossi, Hveragerði og Þorlákshöfn. Eins og er vitum við ekki enn hvort það sé mögulegt út frá smitvörnum en vonandi. Einhverjir hafa verið að koma með matargjafir en vandinn er að við getum ekki geymt þær. Í ár mun Kaupfélag Skagfirðinga styrkja sjóðinn með matargjöfum sem við getum úthlutað,“ segir Guðbjörg.
Þung skref fyrir fólk að stíga
„Það er mjög erfitt að vita af fólki í neyð og ekki síður að upplifa og finna sársaukann með fólkinu þegar það kemur að sækja um. Það gerir það í mikilli neyð og það langar alls ekki að koma.“
„Auðvitað á þetta ekki að vera svona, fólk á ekki að þurfa að koma og biðja um aðstoð eins og þessa. Ég reyni að sýna fólki eins mikla hlýju og ég get og auðvelda þeim að stíga þessi þungu skref sem það er að stíga við að sækja um. Við gerum það öll sem komum að því taka á móti fólki og umsóknum. Við reyndum að hafa aðstæðurnar eins góðar og hægt var, bjóða upp á smá kaffisopa og konfekt og kvenfélagskonur sáu um það. Það verður ekki hægt núna vegna COVID-19,“ segir Guðbjörg að lokum og þakkar öllum þeim sem hafa styrkt Sjóðinn góða.
Þeir sem vilja styrkja Sjóðinn góða geta lagt inn á eftirfarandi reikning: 325-13-301169, kennitala: 560269-2269. Margt smátt gerir eitt stórt.
Upplýsingar fyrir styrki úr Sjóðnum góða:
Umsóknarblöð er hægt að nálgast á Facebooksíðu Sjóðsins góða. Einnig er hægt að senda tölvupóst á sjodurinngodi@gmail.com og óska eftir að fá umsóknarblað sent.
Á umsóknardögum er hægt að hringja í síma 4381051, 4381052 eða 4381053 og sækja um símleiðis. Aðeins er tekið við umsóknum í síma á auglýstum umsóknartíma. Þau sem ekki geta sótt um rafrænt eða símleiðis geta komið á umsóknardögum í Rauða krossinn, Eyravegi 23 á Selfossi og sótt um þar.
Umsóknardagar eru:
Mánudag 23. nóv. kl. 9-12
Þriðjud 24. nóv. kl. 15-18
Miðvikud 25. nóv. kl. 9-12
Mánud. 7. des. kl. 9-12
Þriðjudag 8. des. kl. 15-18
Úthlutunardagar eru:
Þriðjudagur 15. des kl. 15-18
Miðvikudagur 16. des kl. 9-12
Síminn er eingöngu opinn á auglýstum umsóknartíma og opnar ekki fyrr en 23. nóvember.