Ökumaður mjólkurbíls slapp með skrámur þegar bíllinn hans valt á Suðurlandsvegi við Kerlingadalsá um kl. 19:30 í kvöld.
Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli var bílnum ekið í vestur og var hann með mjólkurtank í eftirdragi. Vagninn fór að rása í mikilli hálku með þeim afleiðingum að ökumaðurinn missti stjórn á bílnum sem hafnaði á hliðinni utan vegar. Nokkur þúsund lítrar láku úr mjólkurtanki bílsins.
Bílstjórinn var fluttur á heilsugæslustöðina í Vík til skoðunar og var hann útskrifaður í kvöld. Hann slapp með skrámur og minniháttar áverka.
Bifreiðin skemmdist við óhappið og er enn utan vegar. Hún verður sótt á morgun að sögn lögreglu.