Mjólkurbíll frá MS valt á hliðina þegar vegkantur gaf sig á veginum við Hlíðarbæina í Skaftártungu í hádeginu í dag.
Vegurinn var blautur eftir rigningar en bíllinn var á lítilli ferð þegar kanturinn gaf sig undan honum.
Mjólkurbílstjórinn var einn á ferð og slapp ómeiddur. Hann var fluttur til skoðunar á heilsugæslustöðina á Kirkjubæjarklaustri.
Bifreiðin virðist ekki mikið skemmd en vegkanturinn þar sem bíllinn fór útaf er nokkuð hár. Bíllinn lenti á girðingu og fór girðingarstaur inn um rúðuna farþegamegin.
Í mjólkurtankinum voru um 10.000 lítrar af mjólk, eða rúmlega hálffullur tankur. Tankurinn skemmdist ekki, svo að lítið af mjólk fór til spillis.
Starfsmenn MS munu dæla mjólkinni yfir á annan bíl áður en hægt er að rétta bílinn við.