Mjólkurbúshverfið skipulagt upp á nýtt

Bæjarráð Árborgar samþykkti í gær að mynda starfshóp um stefnumótun í skipulagsmálum í mjólkurbúshverfinu á Selfossi.

Helgi Sigurður Haraldsson, áheyrnarfulltrúi B-lista, lagði fram tillögu á fundinum um að farið verði nú þegar í heildarskipulagsvinnu í hverfinu og þá sérstaklega lóðanna við Austurveg 51-59.

Á fundi bæjarráðs í sumar flutti Helgi tillögu um stækkun á húsnæði fyrir félagsstarf eldri borgara í húsnæði dagdvalar aldraðra í Grænumörk á Selfossi. Þeirri tillögu var vísað til skipulags- og byggingarnefndar og Guðlaugar Jónu Hilmarsdóttur, verkefnastjóra félagslegra úrræða.

„Síðan þá hefur ekkert komið frá þeim aðilum sem tillögunni var vísað til um þetta mál. Svo virðist sem ekkert hafi verið unnið í þessu máli,“ segir Helgi.

„Nú liggur fyrir að Landsbankinn hefur eignast flestar þær eignir við Austurveg 51-59 sem stórhuga aðilar um uppbyggingu við hann áttu um hríð. Því er mikilvægt að sveitarfélagið móti einhverja stefnu um skipulagsmál á þessu svæði til frambúðar. Það væru mikilvæg skilaboð til núverandi og nýrra eigenda þessara lóða. M.a væri hægt að gera þarna ráð fyrir stækkunarþörf fyrir starf eldri borgara, íbúðir í þeirra þágu og jafnvel hjúkrunarheimili,“ bætir Helgi við.

Í starfshópnum sitja Elfa Dögg Þórðardóttir, D-lista, Gunnar Egilsson, D-lista, Þórdís Eygló Sigurðardóttir, V-lista, Helgi S. Haraldsson, B-lista og Arna Ír Gunnarsdóttir, S-lista. Skipulags- og byggingarfulltrúi starfar með hópnum.

Fyrri greinLeiðandi fréttamiðill í 20 ár
Næsta greinStarf framkvæmdastjóra lagt niður