Hollvinir Þórðar Tómassonar safnvarðar í Skógum, Bókaútgáfan Sæmundur og forsvarsmenn Mjólkursamsölunnar hafa handsalað samkomulag um fjármögnun á bókinni Mjólk í mat eftir Þórð.
Ráðgert er að bókin, sem er alhliða fræðirit um mjólkuriðnað gamla bændasamfélagsins, komi út nú í haust.
Í bókinni Mjólk í mat gerir höfundur grein fyrir verklagi við að vinna úr sauða- og kúamjólk þá fjölbreyttu fæðu sem hélt um aldir lífi í Íslendingum. Þau vinnubrögð héldust að miklu leyti óbreytt frá landnámstíð og fram á 20. öld. Meðan hin fornu vinnubrögð voru enn að nokkru við lýði hafði Þórður, sem er fæddur árið 1921, hafið sitt eljusama starf við að bjarga frá gleymsku og eyðileggingu minjum og þekkingu um hið forna samfélag. Hin forna verktækni var ennfremur hluti af daglegu lífi í æsku hans sjálfs.
Þórður vinnur þetta mikla verk eins og honum er einum lagið, og af þeirri yfirgripsmiklu þekkingu sem hann býr yfir framar nokkrum öðrum núlifandi manni. Í því birtist áratuga samræða hans við þjóð sína um íslenska menningu fyrr og síðar, þá þjóð sem þekkti og reyndi sjálf þau vinnubrögð sem voru sameign hins gengna bændasamfélags.
Í upphafi verksins lýsir Þórður hinum fjölmörgu búshlutum, áhöldum og ílátum, sem notuð voru við mjólkurstarfið, smíði þeirra og gerð víða um land. Þá er mjöltum lýst, vinnubrögðum og aðstæðum á stöðli, í seli og í búri en síðan tekur við umfjöllun um vinnubrögð og aðferðir við að „koma mjólk í mat“.
Ítarlega er fjallað um smjörgerð, ostagerð, skyrgerð og fjölmargar aukaafurðir þessara meginþátta í mjólkurstörfum, með margþættri snertingu við daglegt líf liðinna kynslóða.
Allt er verkið reist á viðamikilli heimildavinnu þar sem leitað er fanga í fjölda útgefinna verka og handrita. En mestu munar um frásagnir fjölmargra heimildarmanna víðsvegar að af landinu sem höfundur hóf ungur að viða að sér. Fjöldi mynda er til skýringar og nánari fróðleiks. Þá fylgja bókinni skrár sem nauðsynlegar eru í slíku grundvallarriti um verkmenningu þjóðarinnar.
Mjólkursamsalan verður með samkomulagi þessu styrktaraðili að útgáfu á þessu stórvirki Þórðar. Nú þegar íslenskar mjólkurafurðir njóta vaxandi vinsælda um heim allan, er brýnt að þjóðin eigi vandað fræðirit sem rekur ítarlega sögu greinarinnar og verklag.