Vörubifreiðastjórafélagið Mjölnir á Selfossi átti lægsta tilboðið í breikkun og malbikun Biskupstungnabrautar á 2,4 km kafla fyrir ofan Borg í Grímsnesi.
Tilboð Mjölnis hljóðaði upp á rúmar 125,5 milljónir króna en tæplega hálfri milljón hærri var Suðurtak ehf með 126 milljón króna tilboð. Malbikunarstöðin Hlaðbær Colas í Hafnarfirði bauð 138,6 milljónir króna í verkið, Verk og tæki ehf á Selfossi 140,7 milljónir króna og Borgarverk efh 146 milljónir króna.
Öll tilboðin voru yfir áætluðum verktakakostnaði Vegagerðarinnar sem var rúmlega 115,5 milljónir króna.
Verkinu á að vera að fullu lokið þann 1. september næstkomandi.