Vörubílstjórafélagið Mjölnir á Selfossi bauð lægst í endurbætur á 4,6 km kafla á Laugarvatnsvegi, frá Þóroddsstöðum að Grafará.
Tilboð Mjölnis hljóðaði upp á tæpar 166,2 milljónir króna en áætlaður verktakakostnaður var 164,1 milljón króna.
Aðeins munaði tæpum 111 þúsund krónum á tveimur lægstu tilboðunum en Þjótandi ehf á Hellu átti næsta tilboð, tæpar 166,3 milljónir króna.
Þrír aðrir verktakar buðu í verkið; Magnús I. Jónsson ehf bauð rúmar 169,9 milljónir króna, Suðurtak ehf rúmar 170,7 milljónir króna og Borgarverk ehf rúmar 188,2 milljónir króna.
Á komandi vetri verður unnið við efnisútvegun og breikkun vegarins en næsta vor verður núverandi slitlag fræst upp, vegurinn styrktur og lögð út ný klæðning.
Verkinu á að vera að fullu lokið í síðasta lagi þann 1. ágúst 2019.