„Mjúk lokun“ er á Hellisheiði og Þrengslum vegna veðurs en einungis bílar búnir til vetraraksturs fá að fara yfir.
Mikið hefur snjóað á þessum leiðum í morgun og er unnið að snjómokstri. Þæfingsfærð er á köflum, til dæmis í Þrengslum og á Sandskeiðinu, snjókoma og lélegt skyggni og eru vegfarendur eru beðnir að aka varlega.
Gul viðvörun er í gildi á Suðurlandi til klukkan 20 í kvöld vegna snjókomu og er gert ráð fyrir versnandi akstursskilyrðum, einkum í Þrenglsum, á Hellisheiði, í Ölfusi og undir Eyjafjöllum.
Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur greindi frá því á Facebooksíðu sinni að reiknað sé með 80 mm úrkomu á svæðinu í dag.