Lið Menntaskólans að Laugarvatni er komið áfram í 2. umferð í Gettu betur, spuningakeppni framhaldsskólanna í Ríkisútvarpinu.
Lið ML mætti Menntaskóla Borgarfjarðar í síðustu viku og vann öruggan sigur. Eftir 100 sekúndna hraðaspurningar var staðan orðin 15-7, ML í vil. Laugvetningar juku forskot sitt í bjölluspurningunum og keppni lauk með stórsigri, 23-9.
Í liði ML eru þau Bjarki Hrafnsson, Hildur Guðbjörg Benediktsdóttir og Árni Kristinn Skúlason, öll úr 4. bekk. Þjálfari liðsins er Jón Snæbjörnsson, sem keppti fyrir skólann á fyrri hluta 10. áratugar síðustu aldar og er nú orðinn kennari við ML.
Búið er að draga í 2. umferð og þar mun lið ML mæta liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Viðureignin verður í beinni á Rás 2 kl. 20:00 miðvikudaginn 20. janúar.