Í haust hefur Menntaskólinn að Laugarvatni unnið að því að innleiða Office365, hýsingarþjónustu Microsoft með góðum árangri.
Microsoft gaf út tilkynningu í vor um að allar menntastofnanir, starfsfólk, nemendur og kennarar, gætu nýtt sér þjónustu Office365 án endurgjalds. ML notaði áður forvera Office365, þjónustu sem kallast Live@edu en ákveðið var í samstarfi við Tölvu- og rafeindaþjónustu Suðurlands að uppfæra þjónustuna í Office365 sem er mun fullkomnari.
Í tilkynningu frá ML og TRS segir að talið sé fullvíst að ML sé fyrsti skólinn hér á landi til að taka upp Office365 í sínu umhverfi. Einnig er kerfið tengt hýsingarumhverfi TRS sem kallast Miðja.is svo sérfræðingar TRS geta stýrt þjónustunni miðlægt innan úr sínu eigin kerfi. Þessi tenging gerir það að verkum að hægt er að nota einn notanda og eitt lykilorð fyrir allt kerfið í heild til að skrá sig inn í útstöðvar í skólanum, inn á póstinn, innri vefinn, spjallkerfið og fleira.
Office365 fyrir skólaumhverfi samanstendur aðallega af þremur kerfum sem eru: pósthýsing (Exchange/Outlook), spjall- fjarfundar- og viðverukerfi (Lync) og vefkerfi (Sharepoint) en einnig er í boði lítil útgáfa af Microsoft Office pakkanum sem kallast Office Online. Nemendur, kennarar og starfsfólk ML geta því nýtt sér þessa þjónustu alveg án endurgjalds og nálgast hana hvort sem er úr vinnuumhverfi, heima eða annars staðar.
Allir þessir þættir Office365 auka möguleika ML til að nýta sér tæknina í kennslu en einnig skapast möguleiki til fjarkennslu ásamt því að spara umtalsverðar fjárhæðir vegna ókeypis hýsingar ýmissa þátta.
Á myndinni sem fylgir fréttinni eru (f.v.) Áslaug Harðardóttir, verkefnastjóri ML, Páll Magnús Skúlason, aðstoðarskólameistari, Halldór Páll Halldórsson, skólameistari, Stefán Örn Viðarsson, sérfræðingur hjá TRS og Elín Jóna Traustadóttir, sérfræðingur hjá TRS.