Næstkomandi sunnudag, á sjálfan konudaginn, verða Mömmur á markaði á samkomuhúsinu Stað, Eyrarbakka.
Að markaðnum stendur tólf manna mömmuhópur sem kynntist í fæðingarorlofi. Á markaðnum má finna fatnað, leikföng, heimilisvörur og ýmsa muni sem mömmurnar vilja gefa nýtt líf.
Ómetanlegur félagsskapur
Mömmurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa eignast börn í byrjun árs 2024. „Við kynntumst í gegnum fæðingarorlofið og höfum myndað ótrúlega þéttan hóp,“ segir Berglind Björgvinsdóttir, meðlimur mömmuhópsins, í samtali við sunnlenska.is.
„Það hefur verið ómetanlegt að hafa hverja aðra í gegnum þetta einstaka tímabil, þar sem við erum allar að ganga í gegnum það sama og höfum getað leitað ráða, fengið stuðning og hlýtt hjal á erfiðum og auðvitað líka skemmtilegum dögum. Við hittumst reglulega í göngutúrum, kaffispjalli og stundum án barnanna – því okkur finnst líka mikilvægt að eiga tíma fyrir okkur sjálfar.“

Leiksvæði fyrir börnin
Á markaðnum má finna allt mögulegt fyrir allan aldurshóp og bæði kynin. „Það verður mikið úrval af barnaklæðum, fatnaði fyrir alla aldurshópa, leikföngum, heimilisvörum og fleira. Einnig verður leiksvæði fyrir börnin, svo yngstu gestirnir geta skemmt sér á meðan foreldrarnir gramsa í fjársjóðunum!“
„Eins verður hægt að kaupa heila köku, tertu eða annað bakkelsi til að taka með heim og njóta á konudaginn – tilvalið til að tríta konuna í lífi þínu eða bara sjálfan þig.“
Gleðidagur framundan
Berglind segir að mömmuhópurinn ætli að nýta sjálfar hluta af sölunni til að fjármagna skemmtilegan dag saman, án barna. „Við höfum eytt svo miklum tíma saman með börnunum okkar að nú langar okkur að gera eitthvað fyrir okkur sjálfar. Það sem eftir stendur skiptum við á milli okkar.“
„Markaðurinn er opinn frá klukkan 12-17. Við hvetjum alla til að koma og gera góð kaup, styðja við hringrásarhugsun og næla sér í ljúffengt bakkelsi fyrir konudaginn! Við hlökkum til að sjá sem flesta,“ segir Berglind ennfremur.