Um helgina fer sveitahátíðin Fjör í Flóa fram í Flóahreppi en boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá alla helgina. Hátíðin hefst á föstudagsmorguninn með opnu húsi í leikskólanum Krakkaborg en eftir það mun hver viðburðurinn reka annan.
Á föstudagskvöldinu verður haldin hrossamessa á gistiheimilinu í Vatnsholti þar sem trúbador mun halda uppi fjörinu.
Dagskráin á laugardaginn hefst með morgunverði í Þingborg í boði Fjörs í Flóa og fyrirtækja á Suðurlandi en ungmennafélögin í Flóahreppi munu sjá um barnadagskrá á meðan á morgunverðinum stendur. Einnig verður mikið um að vera í Þingborg allan laugardaginn en meðal þess sem boðið verður upp á er hlutavelta, blómamarkaður, kökusala og bókamarkaður.
Á sunnudaginn mun Fanndís Huld Valdimarsdóttir opna verslunina Gallerý Flói í Gömlu Þingborg klukkan 14 og töframaðurinn Einar Mikael sýnir töfrabrögð í Þingborg klukkan 12.