Á bæjarstjórnarfundi í Árborg í gær ítrekuðu bæjarfulltrúar S-listans afstöðu sína gagnvart frekari fjárútlátum vegna hugsanlegrar Ölfusárvirkjunar.
„Nú hefur meirihlutinn ákveðið að setja enn meira fjármagn í hugmyndina og í þetta skiptið til að láta gera glærusýningu um minni virkjanakost. Undirrituð telja þeim fjármunum sem nú á að setja til viðbótar í virkjanamál mun betur varið í önnur mikilvægari mál,” segja Arna Ír Gunnarsdóttir og Eggert Valur Guðmundsson í bókun sinni.
Eftur umræður um málið á fundinum lagði Bjarni Harðarson, fulltrúi V-lista, lagði fram bókun og sagði að hann legði áherslu á að sú tillaga sem samþykkt var í veitustjórn sé árangur af gagnrýni sem fram kom á stórtækar virkjanahugmyndir. Fagleg athugun á öðrum kostum sé ávinningur fyrir umhverfismál í Sveitarfélaginu Árborg.
Tillagan um viðbótarfjárveitingu til athugunar á minni virkjunarkosti í Ölfusá var síðan borin undir atkvæði og samþykkt með 6 atkvæðum bæjarfulltrúa D- og V-lista. Bæjarfulltrúar S- og B- lista voru á móti.