Sveitarstjórnir Rangárþings ytra og Ásahrepps mótmæla harðlega yfirlýsingu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSu) um að loka eigi heilsugæslustöðinni á Hellu.
Fram kemur í yfirlýsingu frá sveitarstjórnunum að heilsugæslustöðin á Hellu þjóni íbúum á stóru svæði í Rangárvallasýslu. Hátt í 2.000 íbúum og hátt í 500 húsa sumarbústaðabyggð auk gríðarlegs fjölda ferðamanna. Að auki sé Stjórnstöð Almannavarna og fjöldahjálparstöð staðsett á Hellu.
Í yfirlýsingunni er tekið fram að í fréttatilkynningu HSu frá 29. nóvember 2011 hafi hvorki verið lögð fram fagleg eða fjárhagsleg rök til stuðnings þessari tillögu. Það sé því mikilvægt að þau verði unnin af óháðum fagaðilum og lögð fram.
Furðulegt að loka nýrri byggingu
„Á Hellu var nýlega ráðist í byggingu tengibyggingar til að mynda þjónustukjarna sveitarfélagsins, verslunar, heilsugæslu, apóteks o.fl. Framkvæmdin naut stuðnings ríkisvaldsins og var einn megin tilgangurinn með framlaginu að stórbæta aðgengi fyrir hreyfihamlaða að heilsugæslunni og hefur það nú þegar verið gert á myndarlegan hátt. Svo vitnað sé orðrétt til samnings Rangárþings ytra, heilbrigðis- og fjármálaráðuneytisins frá 28. des. 2009: “Tilgangurinn með byggingunni er m.a. að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að þeirri þjónustu sem rekin er og veitt í framangreindum húsum sérstaklega að því er varðar aðkomu að heilsugæslustöðinni”. Í samningnum kemur einnig fram að afhending húsnæðisins eigi að vera 31. des. 2011. Það vekur því furðu að á sama tíma og húsnæðið er tilbúið, ákveði forsvarsmenn HSU að leggja til að Heilsugæslustöðinni á Hellu verði lokað,“ segir í yfirlýsingunni.
Sveitarstjórnirnar segja að þessar hugmyndir séu mikið áfall fyrir íbúa og skjólstæðinga þjónustunnar og gangi þvert á stefnu ríkisvaldsins um uppbyggingu heilsugæslu á landsbyggðinni.
Staðið verði við samkomulag
Fram kemur að forsvarsmenn sveitarstjórnanna hafi fundað með framkvæmdastjórn HSu í dag og komið á framfæri alvarlegum athugasemdum og mótmælum er varði þessa tillögu. Einnig hafi verið óskað eftir fundi með velferðarráðherra.
„Sveitarstjórnirnar leggjast alfarið gegn fyrirhuguðum breytingum og munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélaganna og annarra þjónustuþega. Þess er því krafist að staðið verði við markmið ofangreinds samnings frá 28. des. 2009 er varðar uppbyggingu á Heilsugæslu á Hellu.
Miðstöð almannavarna er á Hellu og fjöldahjálparstöð sem er hugsuð fyrir Rangárvallasýslu,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.