Fulltrúar foreldra með börn í daggæslu í Árborg afhentu sveitarfélaginu undirskriftarlista í morgun þar sem m.a. er mótmælt lágum endurgreiðslum frá sveitarfélaginu.
Allir þeir sem vista börn hjá dagforeldrum í sveitarfélaginu skrifuðu undir listana en alls eru um fimmtíu börn í vistun hjá dagforeldrum í Árborg.
Mánaðardvöl hjá dagforeldri kostar um 70 þúsund krónur á mánuði fyrir heilan dag. Hjón með barn fá endurgreiddar 24 þúsund krónur frá sveitarfélaginu og þurfa að sækja endurgreiðsluna í ráðhúsið um hver mánaðarmót.
Hugrún Jóna Hilmarsdóttir hafði frumkvæðið að undirskriftarsöfnuninni eftir að hafa heyrt af því hvernig þessum málum væri háttað í öðrum sveitarfélögum. Í Garðabæ fá hjón t.a.m. greiddar 55 þúsund krónur til baka frá sveitarfélaginu og víðast hvar þurfa foreldrarnir ekki að sækja endurgreiðsluna heldur greiða dagforeldrunum mismuninn.
“Þetta er mikið baráttumál fyrir barnafólk í sveitarfélaginu,” sagði Gústaf Lilliendahl, fulltrúi foreldranna, í samtali við sunnlenska.is. Hann kynnti málið fyrir fulltrúum sveitarfélagsins í morgun en Eyþór Arnalds og Sandra Dís Hafþórsdóttir tóku við listanum fyrir hönd sveitarfélagsins.
Eyþór þakkaði fyrir þær ábendingar sem foreldrarnir lögðu fram og sagði að þau myndu gera sitt besta, en lofa engu um niðurstöðu málsins. Erindi foreldranna verður tekið fyrir í bæjarráði á næstunni.