Mótmæla virkjun við Hagavatn

Ferðafélag Íslands gagnrýnir hugmyndir um virkjun við Hagavatn. Of miklu sé fórnað fyrir of lítinn orkuvinning. Virkjun við Hagavatn er einn af þeim kostum sem fjallað er um í rammaáætlun.

Ferðafélag Íslands hefur rekið skála við Hagavatn í 70 ár, skrifaðar hafa verið árbækur FÍ um svæðið og árlega hefur FÍ skipulagt ferðir þangað.

„FÍ blandar sér að jafnaði ekki í virkjanadeilur en áskilur sér rétt til að taka til máls þar sem vegið er beinlínis að hagsmunum félagsins eins og við Hagavatn að viðbættum þeim náttúruspjöllum sem virkjunin hefur í för með sér. Virkjunarmenn oftúlka landgræðsluávinning af virkjuninni, jafnvel með fjarstæðukenndum fullyrðingum um að oft sé stærstur hluti af svifryksmengun á Suðurlandi og í Reykjavík ættaður af svæðinu við vatnið og að þetta megi hefta með því að fleyta vatni yfir nokkurra ferkílómetra svæði.

Hér við bætist að stórefast má um að vatnsbúskapur virkjunarinnar verði svo öruggur að réttlæta megi miljarða fjárfestingu fyrir lítil orkuafköst,“ segir í tilkynningu frá FÍ.

Fyrri greinSveitarstjórnin með viðtalstíma
Næsta greinHulda setti Íslandsmet